Gagnasöfn

Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa verið búin til og þróuð fjölmörg gagnasöfn. Mikilvægur þáttur í stefnu hennar er að opna aðgang að gögnum hennar. Takmarkið er opinn aðgangur að öllum frumgögnum stofnunarinnar.

Beyging orða

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er safn beygingardæma þar sem leita má að orðum og einstökum beygingarmyndum orða, þ.m.t. mannanöfnum. Í safninu eru nú tæplega 260 þúsund beygingardæmi.

 

Málfarsbanki Árnastofnunar

Í Málfarsbankanum er hægt að slá inn leitarorð sem lúta að málnotkun og finna úrlausnir sem teknar hafa verið saman. Aðgangur að Málfarsbankanum er á vefgáttinni málið.is.

Íslensk orðanet

Íslenskt orðanet er rannsóknarverkefni sem unnið er að á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er í því fólgið að sundurgreina og flokka íslenskan orðaforða eftir merkingareinkennum orðanna

Fræðimannaskrá

Fræðimannaskráin inniheldur upplýsingar um á sjöunda hundrað fræðimenn í íslenskum fræðum um allan heim. Með leit í skránni má fá upplýsingar um nöfn, heimilisföng og áhugasvið fræðimanna og eins má leita að fræðimönnum á tilteknum sviðum eða í einstökum löndum.

Handrit.is

Þessi vefur er samskrá yfir íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling). Einnig er veittur aðgangur að stafrænum myndum handrita.

Icelandic Online

Námskeiðið Icelandic Online er sjálfstýrt vefnámskeið í íslensku sem erlendu máli. Það byggist á myndrænu og gagnvirku námsefni og samsvarar 45–90 klukkustunda námi. Námskeiðinu fylgir málfræði- og orðabókargrunnur, sem er lagaður að námsefninu og þörfum nemenda.

ISLEX-orðabókin

ISLEX er margmála orðabók á vefnum milli íslensku annars vegar og dönsku, finnsku, færeysku, norsku (bókmáls og nýnorsku) og sænsku hins vegar.

Íðorðabanki Árnastofnunar

Í Íðorðabankanum eru fjölmörg sérfræðiorðasöfn (íðorðasöfn), til dæmis í læknisfræði, rafmagnsverkfræði, efnafræði og stjórnmálafræði. Hægt er að leita að íslensku eða erlendu hugtaki og fá þýðingu þess á öðru máli. Í sumum söfnum eru einnig sýndar skilgreiningar hugtaka.

Íslenskukennsla erlendis

Gagnabanki um erlenda háskóla þar sem kennd er íslenska, bæði fornmálið og nútímamál. Mögulegt er að leita eftir heiti skóla, landi og kennara.

Íslensk málföng

Vefsetur þar sem eru upplýsingar á íslensku og ensku um íslensk málföng:  texta, hljóð og tól.  Frá vefnum eru tenglar á sérstakar síður þar sem málföngin eru aðgengileg til leitar eða til þess að sækja skrár með forritum, textum eða hljóði.

Íslenskt textasafn

Í Íslensku textasafni eru gamlir og nýir textar af ýmsum toga sem skiptast á milli 30 efnisflokka, samtals um 60 milljónir lesmálsorða. Textasafnið er mikilvægt hjálpargagn þeim sem fást við rannsóknir sem varða íslenskt mál, sagnfræði o.fl.

Ísmús – þjóðfræðisafn

Ísmús – íslenskur músík- og menningararfur – er gagnagrunnur sem geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta.

Bragi – óðfræðivefur

Bragi – óðfræðivefur er gagnvirkur vefur með ljóðum og lausavísum frá öllum öldum íslenskrar sögu. Bragarhættir ljóða og vísna eru sýndir í grafísku formi og hægt að sjá hvaða ljóð á vefnum eru ort undir ákveðnum háttum. Skáldskapurinn er flokkaður eftir efni og getið höfunda, þar sem þeir eru þekktir, og sögð deili á þeim. Allmörg lög er einnig að finna á vefnum. Í rafrænni handbók eru skýringar á táknmáli bragarhátta og helstu hugtökum sem notuð eru í háttalýsingum.

Mörkuð íslensk málheild

Safn með um 25 milljónum orða af fjölbreyttum textum sem eru geymdir í stöðluðu sniði í rafrænu formi. Orð í textunum eru greind málfræðilega og hverjum texta fylgja bókfræðilegar upplýsingar um verkið sem textinn er úr. Málheildin er ætluð fyrir málrannsóknir og til notkunar í máltækniverkefnum.  Hér er tengill á leitarsíðu en í gegnum www.málföng.is má sækja textana til notkunar í máltækniverkefnum.

Bæjatal

Bæir á Íslandi í stafrófsröð. Upplýsingar fylgja um sveitarfélag sem bæirnir tilheyrðu 1970 og sem þeir tilheyra núna.

Orðasambönd

Orðasambandaskráin er unnin upp úr tölvuskráðum notkunardæmum úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans sem spanna íslenskar ritheimildir allt frá miðri 16. öld. Í skránni birtist fjölbreytileg mynd af notkun einstakra orða í föstum samböndum og í dæmigerðu samhengi við önnur orð.

 

Ritmálssafn

Safnið spannar tímabilið frá 1540 til nútímans. Gagnasafnið geymir upplýsingar um öll orð í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans auk notkunardæma um flest þeirra. Auk þess eru þar upplýsingar um heimildirnar sem dæmin eru sótt til. Alls eru í safninu yfir 600 þúsund uppflettiorð og dæmafjöldinn er um 2 milljónir.

Safn stafrænna handritamynda

Stafrænar ljósmyndir af nokkrum miðaldahandritum sem geymd eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Sarpur

Sarpur er menningarsögulegt gagnasafn. Örnefnasafn stofnunarinnar er eitt aðildarsafna og þar er að finna lýsingar á örnefnum. Í Sarpi eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni.

Stafsetningarorðabókin

Stafsetningarorðabókin er hin opinbera réttritunarorðabók um íslensku. Aðgangur að 2. útgáfu hennar (í vinnslu) er á vefgáttinni málið.is. Opinn leitaraðgangur er að 1. útgáfu bókarinnar á vefnum snara.is.

LEXIA - Íslensk-frönsk veforðabók

LEXIA er íslensk-frönsk orðabók með um 50.000 orðum. Þetta er samstarfsverkefni milli Árnastofnunar og Stofnunar Vigdísar
Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Verkið er enn í vinnslu en er þó þegar opið til uppflettingar.

Íslensk nútímamálsorðabók

Íslensk nútímamálsorðabók hefur að geyma 50.000 uppflettiorð með íslenskum skýringum. Þetta er veforðabók sem byggir á sama grunni og ISLEX- og LEXIA-orðabækurnar og hún er eitt þeirra verka sem eru aðgengileg í gegnum vefgáttina málið.is. Orðabókin hefur verið í vinnslu hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 2014.