Stefna

Samþykkt á húsþingi 9. apríl 2008


Inngangur – saga, staða og meginstefna

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hóf starfsemi 1. sept. 2006 og tók þá við hlutverki fimm stofnana: Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskólans, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Meginhlutverk stofnunarinnar eru: að afla frumgagna um íslenska menningu – handrit, skjöl, orða- og nafnasöfn og þjóðfræðasöfn – varðveita þau og skrá; að vinna að rannsóknum á íslenskum fræðum, tungu, bókmenntum og sögu; að miðla þekkingu á viðfangsefnum sínum til almennings og fræðasamfélags með ráðgjöf, kennslu, opnum gagnagrunnum og birtu efni og að efla samstarf stofnana á fræðasviði sínu utan lands og innan. Hlutverk stofnunarinnar er nánar skilgreint í lögum og reglugerð.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fékk ríkulegan arf frá þeim stofnunum sem hún leysti af hólmi. Hún er öflug varðveislu-, rannsóknar- og þjónustustofnun með góðan orðstír heima og erlendis vegna einstæðra rannsóknargagna, öflugrar og vandaðrar rannsóknarstarfsemi og góðrar rannsóknaraðstöðu, einnig vegna fjölþættrar og góðrar þjónustu. Starfslið er vel þjálfað og samhent og starfsandi góður. Öflugt bókasafn með góð fjárráð er stofnuninni og rannsóknarumhverfinu mikilvæg stoð.

Nýrri stofnun er mikilvægt að treysta innra skipulag og stjórnun til samhæfingar krafta og fyllstu nýtingar fjármuna og tækja. Stuðla þarf að því að starfslið stofnunarinnar skynji sig æ betur sem hluta af heild og hver einstakur hafi skýra vitund um stöðu sína og mikilvægi innan þeirrar heildar. Óhjákvæmilega seinkar það samrunaferlinu að stofnunin dreifist á þrjá vinnustaði, en stefnt er að því að hún verði öll komin í sameiginlegt húsnæði ekki síðar en um mitt ár 2011. Um skeið hefur starfinu verið þröngur stakkur skorinn í fjárveitingum og húsnæði og nýliðun hefur verið takmörkuð. Auk rúmgóðs og hentugs húsnæðis fyrir gögn, tækjabúnað og fastráðna starfsmenn þarf stofnunin rými handa lausráðnu rannsóknarfólki, og hún leitast við að veita bæði íslenskum og erlendum gestum, ekki síst stúdentum Háskóla Íslands, aðgengi að rannsóknargögnum.

Stefnt er að því að styrkja innviði stofnunarinnar og efla starfsemina með ýmsum hætti: Leitast er við að skipuleggja allt starf vel og veita starfsmönnum góð kjör, þjónustu og aðstöðu. Stofnunin kappkostar að bæta eftir megni þjónustu sína við innlent og erlent fræðasamfélag, m.a. með aðkomu að kennslu í íslensku erlendis, námskeiðahaldi og kennslu innanlands, einkum í samvinnu við Háskóla Íslands. Stofnunin leggur rækt við að þjóna almenningi með uppbyggingu opinna gagnagrunna með aðgengilegum upplýsingum um íslenska tungu, þjóðfræði og ritaðar heimildir. Síðast en ekki síst keppir stofnunin að því að efla rannsóknarstarf sitt með hagnýtingu rafrænnar tækni, með því að efla samstarf fræðimanna innan stofnunar og við fræðimenn og stofnanir innan lands og utan, og með öflugri sókn í rannsóknarsjóði.


Stjórnun og skipulag

1. Stofnunin mun á næstu árum þróa skipurit sitt með hliðsjón af verkefnum og aðstöðu svo að það stuðli að fyllstu skilvirkni og bestu mögulegu nýtingu fjármagns og mannauðs í þágu markmiða stofnunarinnar. Til þess að ná því markmiði þarf að tryggja gott upplýsingastreymi innan stofnunar, móta árangursríkar aðferðir til að virkja starfsmenn til þátttöku í stefnumótun og stjórnun, styrkja fjármála- og starfsmannastjórn og taka upp hópvinnukerfi við skjalastjórnun. Þá verði þróaðar skipulegar aðferðir við stjórnun og mótun verkferla.


Stoðþjónusta

2. Bókasafns- og upplýsingasvið er grunnþáttur stoðþjónustu, og þangað verður beint auknum starfskröftum eftir að komið er í nýtt hús. Áfram verður stefnt að því að efla bókakost á fræðasviði stofnunarinnar og áhersla lögð á að afla afrita (ljósmynda og annarra eftirmynda eða -rita) af frumgögnum sem varðveitt eru erlendis. Mikilvægi gagnagrunna og annarrar stafrænnar vinnslu fer stöðugt vaxandi; mótuð verður stefna um þróun á því sviði; innan stofnunar verður góð þjónusta við tölvuvinnslu og í öðrum tæknilegum efnum. Stefnt er að því að öll stoðþjónusta verði efld í nýrri byggingu.


Ráðgjafar- og kynningarþjónusta við fræðasamfélag og almenning

3. Heimasíða stofnunarinnar er andlit hennar og opnar aðgang að gagnasöfnum hennar, orðabókargrunnum, íðorðabanka, örnefna- og þjóðfræðagrunnum, stafrænum handritamyndum og margvíslegum efnisskrám og -lyklum. Gagnagrunnar þar sem almenningur getur leitað upplýsinga verða efldir, en jafnframt mun stofnunin áfram svara fyrirspurnum og gefa út fræðsluefni handa almenningi. Sýningarhald er snar þáttur í kynningarstarfi stofnunarinnar og verður eflt í nýju húsnæði. Stefnt er að því að kynna vel starf stofnunarinnar og viðburði á hennar vegum, jafnframt því sem skipulega verður að því unnið að tryggja orðstír hennar og ímynd.


Málrækt

4. Víðtækt málræktarstarf fer fram á vegum stofnunarinnar og unnið er að ýmsum hagnýtum verkefnum í því sambandi. Málfarsráðgjöf til almennings stendur á gömlum merg og felst m.a. í svörum við beinum fyrirspurnum. Aukin áhersla er lögð á gerð leiðbeiningaefnis sem komið er fyrir á vefsíðu stofnunarinnar og samning sérstakrar handbókar um málnotkun er hafin. Þá hefur stofnunin með höndum gerð og útgáfu íslenskrar stafsetningarorðabókar, og verður unnið að endurskoðun hennar. Stofnunin hefur einnig það hlutverk að styrkja íslenskt íðorðastarf með fræðilegri ráðgjöf til orðanefnda og annarra sem til hennar leita og með því að reka sérstakan íðorðabanka með umfangsmiklu safni íslenskra íðorða á fjölmörgum fagsviðum ásamt jafnheitum þeirra á erlendum málum.


Alþjóðleg samskipti

5. Samskipti við alþjóðlegt fræðasamfélag eru nú fjölþætt og öflug: fjöldi erlendra fræðimanna sækir stofnunina heim, nýtur aðstöðu til rannsókna, og auðgar samfélagið. Þá gengst stofnunin fyrir ráðstefnum og námskeiðum á fræðasviði sínu með þátttöku erlendra og innlendra fræðimanna, og starfsmenn stofnunarinnar eru í virkum tengslum við fræðimenn á sínu sviði erlendis, sækja ráðstefnur og flytja erindi. Stefnt er að því að bæta aðstöðu fyrir erlenda gesti í nýju húsi og auka alþjóðlegt samstarf, ekki síst með þátttöku í rannsóknarverkefnum og samstarfi um fræðilegar útgáfur.


Menntun og kennsla

6. Stofnunin leitast við að styrkja menntun stúdenta í greinum sem fást við íslensk fræði og efla rannsóknir og kynningu á íslenskum fræðum innan lands og í alþjóðlegu fræðasamfélagi. Starfsmenn stofnunarinnar taka að sér kennslu á sínum sérsviðum, eftir því sem um semst við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Sérstök áhersla er lögð á leiðsögn stúdenta í rannsóknartengdu námi og þjálfun til rannsóknarstarfa. Stofnunin vinnur að því, í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar háskólastofnanir, að efla kennslu í íslensku sem erlendu máli innan lands og utan, bæta starfsaðstöðu og starfskjör sendikennara og styrkja fjarkennslu fyrir útlendinga í samvinnu við Háskóla Íslands. Hér er einnig horft til kennslu þeim til handa sem eiga sér íslensku sem annað mál. Kappkostað verður að nýta fjölþjóðlegar samskiptaáætlanir og samstarfssamninga með nemenda- og kennaraskiptum. Stefnt er að því að efla menntun kennara og rannsóknir á sviði máltileinkunar og menningarlæsis í samvinnu við Háskóla Íslands. Stefnt er að því að þróa námsefnið Icelandic Online enn frekar í samvinnu við aðila innan Háskóla Íslands og utan, auka við efni þess og gera það aðgengilegra fleiri notendahópum. Leitast verður við að styðja gerð kennslugagna sem taka tillit til aðstæðna við íslenskukennslu erlendis og taka mið af málasamanburði.


Rannsóknir og útgáfa íslenskra texta eftir frumheimildum

7. Stefnt er að því að halda áfram öflugum textarannsóknum og útgáfustarfsemi í hæsta alþjóðlegum gæðaflokki. Tekið verður saman yfirlit yfir texta frá fyrri og síðari öldum sem æskilegt er að gefa út. Gætt verður bæði að eyðum í útgáfu handritatexta og þörf á nýjum útgáfum í stað eldri og vanbúinna. Til viðbótar við hefðbundnar prentaðar útgáfur og hljóðútgáfur á diskum, sem munu áfram koma út á vegum stofnunarinnar, býðst nú áður óþekkt tækni við fræðilega útgáfuvinnu og miðlun hennar, og verður kappkostað að nýta ætíð þær aðferðir sem best henta hverju verkefni. Stofnunin mun áfram gefa út rannsóknarrit sem starfsmenn eða aðrir hafa samið og standa að öflugri útgáfu fræðilegra tímarita á fræðasviði sínu.


Rannsóknir á orðaforða og miðlun þeirra með nýrri tækni

8. Rannsóknum á íslenskum orðaforða má nú miðla á miklu fjölþættari og markvissari hátt en áður, og orðfræðileg og orðabókarleg greining og efnisflokkun miðast nú við breytilegar þarfir þeirra sem rannsóknirnar eiga erindi við, hvort sem er til fræðilegra eða hagnýtra nota. Að þessu verður hugað enn frekar á næstu árum. Íslenskur orðabókastofn og samning íslensk-skandinavísku veforðabókarinnar ISLEX er dæmi um framsækið verkefni á þessu sviði. Hinn íslenski stofn verksins byggist á orða- og textasöfnum stofnunarinnar og margvíslegri orðfræðilegri greiningu á þeim efniviði, m.a. merkingarlegri flokkun orðaforðans. Sérstök áhersla er lögð á að nýta þá kosti sem vefmiðlun býður upp á, m.a. með því að skerpa hinar orðabókarlegu upplýsingar með mynd- og hljóðefni. Með ISLEX-verkefninu stuðlar stofnunin að því að auka og efla norrænt menningarsamstarf og greiða fyrir samskiptum við þær þjóðir sem í hlut eiga. Verkefnið er jafnframt gildur þáttur í skipulegri vefrænni miðlun upplýsinga um íslenskan orðaforða fyrir íslenska notendur.


Málheild og beygingarlýsing

9. Á næstu árum verður lögð sérstök áhersla á verkefni á sviði tungutækni. Meginverkefnið er að byggja upp málfræðilega greint textasafn með breiðu úrvali texta frá ólíkum tímabilum íslenskrar málsögu. Undanfarin ár hefur verið unnið að víðtækri lýsingu á beygingu íslenskra orða og með því lögð undirstaða að öðrum tungutæknilegum verkefnum, auk þess sem beygingarlýsingin gegnir hagnýtu hlutverki við orða- og dæmaleit og miðlar upplýsingum um beygingu einstakra orða.


Skráning og miðlun frumgagna

10. Gagnasöfn stofnunarinnar, gömul og ný, eru verðmætur og sígildur efniviður rannsókna á íslenskum orða- og nafnaforða, íslenskum bókmenntum og sögu, og verður kappkostað að styrkja enn það hlutverk þeirra. Hluti af frumgögnum stofnunarinnar er nú þegar skráður í rafrænni mynd og nýtist á ákjósanlegan hátt jafnt til rannsókna og almennrar fræðslu. Margt er þó enn óskráð á nútímavísu og er stefnt að því að rafræn skráning frumgagna verði stóraukin á komandi árum, bæði á því efni sem snertir rannsóknir á íslenskum orða- og nafnaforða, með sérstakri áherslu á örnefni, og því efni sem liggur til grundvallar fræðilegum útgáfum á textum í handritum og á hljóðritum. Með hinni nýju tækni verða sjálfar frumheimildirnar, svo sem ljósmyndir af handritum, hljóðskrár, orða- og örnefnaskrár, gerðar aðgengilegar á netinu. Kappkostað verður að gera einstök söfn með frumgögnum sem best leitarbær eftir efni, orðum, nöfnum, stöðum, aldri og fleiri þáttum, og hugað verður að því að nýta slíka leitarþætti til að tengja saman upplýsingar úr ólíkum söfnum. Mikilvægt margmiðlunarverkefni af þessu tagi er í því fólgið að tengja örnefnaskrár við kort og loftmyndir.


Söfnun nýrra gagna

11. Stofnunin stefnir að því að afla íslenskra handrita eftir því sem kostur er og skrá þau og stuðla jafnframt að því að til verði heildarskrá um íslensk handrit. Einnig verður unnið að því að skrá og varðveita þjóðfræðaefni af vörum fólks, m.a. í samvinnu við þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Jafnframt hljóðritunum, sem tóku við af skráningu skrifara um miðja síðustu öld, er nú horft til þess hvernig megi nýta kvikmyndatækni við þessa vinnu. Í ráði er að hrinda af stað landsátaki í söfnun þjóðfræða með kvikmyndatækni og gera afraksturinn jafnóðum aðgengilegan á netinu. Áfram verður unnið að örnefna- og orðasöfnun. Söfnun orða úr rituðu máli tengist m.a. gerð markaðrar málheildar með úrvali íslenskra texta (sjá 10. lið). Orðanotkun og orðaforði talmáls nýtur vaxandi athygli, og áfram verður aflað vitneskju um orðafar, örnefni og önnur nöfn með beinu sambandi við heimildarmenn, m.a. gagnvirku netsambandi.


Varðveisla heimilda

12. Varðveisla frumgagna og annarra heimildagagna í eigu stofnunarinnar er mikilvægur þáttur í starfsemi hennar. Þessi gögn eru af ýmsu tagi: bækur og skjöl á bókfelli og pappír (þ.á m. seðlar), myndir á filmum og pappír (þ.á m. landakort), hljóðupptökur á vaxhólkum og segulböndum, auk umfangsmikilla og fjölbreyttra stafrænna gagnasafna. Stofnunin vinnur stöðugt að því að umhverfi, aðbúnaður og meðhöndlun slíkra gagna sé með þeim hætti að öryggi sé tryggt. Rekstur forvörslu- og ljósmyndastofu gegnir þar veigamiklu hlutverki. Nýtt framtíðarhúsnæði stofnunarinnar á að uppfylla allar ítrustu kröfur um bestu varðveisluskilyrði og öryggi gagnanna.


Íslensk málnefnd

13. Stofnunin á náið samstarf við Íslenska málnefnd sem hefur með höndum mótun opinberrar íslenskrar málsstefnu og veitir henni margs konar þjónustu.