Þjóðfræði

Þjóðfræðisvið annast þjóðfræðisafn stofnunarinnar, en í því er hljóðritað efni sem safnað er úr munnlegri geymd. Unnið er að rannsóknum á efni safnsins og ýmsum verkefnum sem því tengjast, einkum söfnun og skráningu. Útgáfa er snar þáttur í starfsemi þess. Lögð er áhersla á varðveislu, viðhald, flokkun og skráningu safnsins þannig að gott aðgengi sé að því. Gagnagrunnurinn Ísmús veitir aðgang að efninu á netinu og er stór hluti safnsins þegar aðgengilegur. Öllum er heimill aðgangur og efnið sem birt er á Ísmús má brúka til einkanota, miðla til vina og vandamanna og nota til kynningar, við kennslu og rannsóknir. Notkun sem felur í sér fjölföldun efnis, svo sem til útgáfu, þarf þó að fara fram í samvinnu við stofnunina.